Armbeygjur og upphýfingar hafa lengi verið taldar áhrifamestu æfingarnar til að byggja upp efri hluta líkamans. Armbeygjur (eða aðrar sambærilegar æfingar eins og t.d. bekkpressa) byggja upp brjóstkassa, axlir og þríhöfða – s.s. helming efri hluta líkamans. Upphýfingar byggja upp aðra vöðva þ.e. bak, tvíhöfða og framhandleggi – s.s. hinn helminginn af efri hluta líkamans.

Vandamál flestra (sér í lagi kvenna – en líka karla!) er að þeir geta ekki gert upphýfingar, sem þýðir að meiri áhersla er lögð á armbeygjur/bekkpressur. Þetta veldur vöðva ójafnvægi sem getur svo leitt af sér verki í baki og hálsi. Það er nauðsynlegt að halda jafnvægi.

Gripstyrkur er oft vandamálið. Ef gripstyrkur er ekki nægur til að halda líkamsþyngd þá er líklegt að upphýfingar misheppnist. Til að bæta gripstyrk er hægt að gera æfingar sem viðhalda stöðugri spennu í höndum, handleggjum, öxlum og efra baki – eins og að hanga (úr hringjum eða stöng) í x langan tíma eða ganga með þung lóð í x langan tíma. Byrja smátt og byggja upp þol og styrk.

Margir nota bara vöðvana sem eru að vinna vinnuna í upphýfingunni – vöðvana í kringum axlaliðina (sem er ekki gott) í stað þess að nota ALLAN líkamann. Það er nauðsynlegt að spenna alla vöðva; spenna ristar, læsa fótleggjum, spenna rass, setja höku að bringu og spenna kvið um leið og við togum brjóstkassa að stönginni. Ekki slaka á fyrr en við erum komin aftur niður.

Meðan verið er að byggja upp styrk fyrir upphýfingar er gott að byrja á svokölluðum neikvæðum upphýfingum. Þetta gerum við í Yoga Trapeze tímum. Í neikvæðum upphýfingum er bakið í aðalhlutverki og þríhöfðinn í aukahlutverki. Við hoppum upp og einbeitum okkur svo BARA að því að síga rólega niður – ekki að upphýfingunni sjálfri. Þetta er ekki eins erfitt og venjuleg upphýfing þar sem unnið er MEÐ þyngdarlögmálinu en ekki gegn því. Þetta hjálpar okkur að byggja upp vöðva og tækni til að takast á við upphýfingar síðar.